Profile
Blog
Photos
Videos
Hæhæ :) Síðast þegar við blogguðum vorum við nýkomin til Kuala Lumpur í Malasíu. Síðan þá höfum við farið til Víetnam, Kambódíu og Tælands, tvisvar.
(Þar sem að símasnúran sem við notum til þess að setja myndir inn í tölvuna er týnd verður þetta að vera myndalaust blogg að þessu sinni, en albúmið á facebook er opið og þar eru nýjar myndir ef þið viljið skoða :) )
Við vorum í Kuala Lumpur, Malasíu í 6 daga. Þar gistum við í Chinatown á mjög góðu hosteli. Á fyrsta deginum okkar fórum við og skoðuðum Batu Caves sem er heilagur hellir og maður þarf að ganga upp 250 þrep til að komast þangað. Við hliðina á Batu Caves er annar hellir sem kallast Dark Caves og við fórum í hellaskoðun þar sem var mjög fínt. Það skemmtilegasta við þetta var að það voru fullt af öpum fyrir utan Dark Caves.
Næstu dagar fóru bara í það að skoða borgina. Við gengum að Petronas Towers og KL turninum en tímdum ekki að fara upp því það er svo sjúklega dýrt og svo kíktum við nokkrum sinnum á markaðinn í Chinatown.
Við flugum til Bangkok eftir 6 daga dvöl í Malasíu og vorum þar í þrjá daga. Við gerðum lítið sem ekkert þar sem við komum um kvöldið og vorum þreytt daginn eftir og fórum svo snemma um morgunin á þriðja deginum. Það góða við að stoppa í Bangkok var að við gátum skilið mest af farangrinum okkar eftir þar þannig að við þurftum ekki að taka hann með okkur til Víetnam og Kambódíu.
Eftir þetta stutta stopp í Bangkok flugum við til Ho Chi Minh City í Víetnam og byrjuðum skipulagða ferð sem heitir Cambodia Experience. Við tókum leigubíl á hótelið (já, hótel!) en þar hittum við Phil, tour guide-inn okkar og 12 aðrar manneskjur sem voru með okkur í Cambodia Experience. Við borðuðum með hópnum og fórum á fínan kokteil bar en fórum snemma að sofa því að daginn eftir vöknuðum við klukkan 7 til þess að keyra að Mekong River, sem tók 2 tíma.
Þegar við komum að Mekong River settumst vid upp i bát og sigldum um ánna. Það var yndislegt veður, sól og blíða, og við stoppuðum á nokkrum eyjum, fórum í hestvagn, sigldum á árabáti og borðuðum svo rosalega góðann hádegismat á veitingastað á einni eyjunni. Við borðuðum m.a. fisk sem kallast "elephant fish" sem lítur mjög illa út en er samt ótrúlega góður!
Næsta dag keyrðum við í rútu til Kambódíu. Það var ótrúlega fallegt að keyra yfir til Kambódíu, allt svo grænt og fallegt þarna en líka mjög skrítið að sjá hvað húsin voru léleg og illa farin.
Þegar við komum til Phnom Penh, í Kambódíu fórum við í Cyclo tour en það er þegar þú situr í körfu og maður hjólar um borgina með þig. Það er mjög mikið af götubörnum í Kambódíu og eftir happy hour fórum við á pizza charity stað, þar sem mest allur ágóðinn fer í að hjálpa götubörnum. Á leiðinni á bar eftir kvöldmatinn hittum við nokkra götukrakka og þau voru rosalega hrifin af okkur og sérstaklega Hákoni sem hljóp um götur Phnom Penh og lék við þau.
Daginn eftir fórum við að S21 fangabúðunum, þar sem þjóðarmorðin í Kambódíu áttu sér stað frá 1975-1979. Ég mæli ekki með því að fara þangað þunnur. Þetta var samt ótrúlega áhugavert og mjög sorglegt að sjá, en þar sem við vorum í skipulögðum hóp þá gátum við ekki alveg skoðað það sem við vildum eða verið eins lengi og við vildum þarna.
Eftir S21 fórum við að Killing Fields, þangað var fólk keyrt úr fangabúðunum og drepið og fjöldagrafirnar voru til sýnis. Við vorum með tour guide sem talaði mjög óskýra ensku og við skildum eiginlega ekkert af því sem hann sagði, þannig að við lærðum kannski ekki alveg eins mikið um sögu Kambódíu eins og við hefðum viljað.
Daginn eftir keyrðum við til Siem Reap, sem er talsvert skemmtilegri borg en Phnom Penh. Við vorum með sundlaug á hótelinu (!!!) þannig að við sóluðum okkur þegar við komum þangað og svo um kvöldið fórum við út að borða á grillstað þar sem við grilluðum sjálf allskonar skrítið kjöt. Við smökkuðum snák, kengúru, strút, krókódíl og kjúkling.
Næsta dag vöknuðum við eldsnemma, kl 4:30 til þess að sjá sólarupprásina við Angkor Wat, sem er 12000 ára gamalt hof. Þessi sólarupprás átti ekki séns í miðnætursólina á Íslandi, við hefðum átt að vera heima að sofa.
Eftir Angkor Wat fórum við í Tomb Raider Temple, þar sem Tomb Raider var tekin upp og það var ekkert sérstaklega skemmtilegt, en allt í lagi. Eftir það fórum við í annað hof sem ég því miður man ekki hvað heitir, en það var ótrúlega flott og eiginlega lang flottasta hofið sem við sáum.
Næst fórum við í skóla þar sem við hittum Kambódísk börn sem voru voðalega glöð að sjá okkur. Enn og aftur sló Hákon í gegn hjá krökkunum. Síðan skoðuðum við spítala fyrir fólk sem bjó þarna nálægt og fórum svo að borða þar við hliðina á. Það er veitingastaður þar sem ágóðinn fer í spítalann og skólann sem við skoðuðum.
Daginn eftir var ég veik en strákarnir fóru með hópnum okkar að skoða Angkor Wat og gáfu svo blóð á barnaspítala.
Seinna þennan dag keyrðum við um sveitina á fjórhjóli og ég ákvað að skella mér þrátt fyrir að vera ennþá veik og það var voða skemmtilegt. Um kvöldið borðuðum við svo á enn einum charity veitingastaðnum en það var skóli í óbyggðunum og við þurftum að sitja á gólfinu og borða.
Eftir matinn fórum við og fengum okkur fiskanudd, þar sem að fiskar borða lappirnar á þér. Það var alveg sjúklega óþæginlegt! En gaman að prófa :)
Daginn eftir kvöddum við Kambódíu og keyrðum til Bangkok. Við fórum að borða á Cabbages and Condoms og fórum svo á Skybar þar sem útsýnið var geggjað og drykkirnir mjööög dýrir. Vatn kostaði 1100 kr! Bjórinn kostaði aðeins minna en á Íslandi sem er náttúrulega algjör skandall hérna í Asíu.
Næsta dag kvöddum við hópinn okkar og flottheitin og fórum á hostelið okkar í Bangkok. Við gistum þar í 4 nætur og eyddum tímanum okkar í það að sofa og drekka. Mjög uppbyggilegt.
Síðasta mánudag keyrðum við svo í 6 tíma að Sanghklaburi þar sem við fórum í aðra hópferð sem heitir Lake House. Við gistum þar í húsbát sem var dreginn af öðrum bát í 3 nætur. Við fengum ágætt veður og náðum að tana smá. Það sem við gerðum í Lake House var bara að sulla í vatninu og slaka á. Þessi ferð er ekki gerð fyrir ungt fólk þar sem það voru bara fjölskyldur þarna og allir fóru að sofa kl 9 - og happy hour-ið var til skammar.
Síðasti dagurinn í Lake House(í gær) var lang skemmtilegastur, en þá fórum við á fílsbak og fórum á bambus fleka niður á og syntum í ánni. Mjög gaman :) Eftir það fórum við á hótel í Sanghklaburi og gistum þar.
Í morgun vöknuðum við klukkan hálf 8 og keyrðum aftur til Bangkok og erum eiginlega bara nýkomin :)
Við verðum hér í Bangkok í tvo daga og tökum svo næturlest til Koh Tao á sunnudaginn. Þá förum við að læra að kafa :) :)
Núna er bara mánuður í að við komum heim og okkur hlakkar til þess að komast á almennilegt klósett.
Bestu kveðjur,
Hákon, Hlynur og María.
- comments
Skúli Jæja, loksins kom almennilegt blogg. Í Köben ræðum við frekar um snáka- og krókódílaát! Farið varlega í köfunardæminu en meira blogg.
Aðalsteinn Frábært að heyra frá ykkur, fannst þið vera orðin nokkuð fjarlæg! Skemmtilegt að heyra hversu margbreytilegt þetta er hjá ykkur. Þetta er ógleymanleg upplifun hjá ykkur. Skemmtið ykkur vel og eins og Skúli segir...meira blogg.