Profile
Blog
Photos
Videos
Hæhæ
Okkur langaði aðeins að segja ykkur frá því sem við höfum verið að gera síðustu 6 daga en við lögðum af stað frá Keflavík til Kaupmannahafnar kl 1 á þriðjudagsmorgun. Þegar við lentum í Köben voru 9 tímar í næsta flug svo að við fórum til Guðrúnar og Leifs og fengum þar glæsilegan morgunverð og svo hvíldum við okkur aðeins. Flugið frá Dubai tók 6 tíma og þar flugum við í fyrsta sinn með Emirates Airlines. Þetta er án efa besta flugfélag í heimi. Frír matur, frítt áfengi, geggjuð sæti og frábær afþreying.. algjör snilld!
Þegar við komum til Dubai var klukkan 11 um kvöldið og það var ennþá 35 stiga hiti! Við fórum aðeins út og gjörsamlega dóum úr hita. Í Dubai er stærsti flugvöllur sem við höfum nokkurntíman séð! Frá flugvélinni gengum við út í rútu sem keyrði í 15 mínútur þar til við komumst að flugvellinum, þaðan gengum við í svona 10 mínútur og síðan tókum við Subway á okkar terminal! Algjör klikkun.
Við biðum í Dubai í 4 tíma og síðan var 4 klst flugferð til Maldives. Það var rosalegur léttir að koma til Maldives og þurfa ekki að fljúga meira. Við vorum mjög þreytt, enda höfðum við sofið frekar lítið á þessum tíma sem það tók okkur að komast þangað.
Við lentum á eyjunni Hulhulé og þaðan tókum við 45 mínútna speedboat til Biyadhoo. Á leiðinni sáum við höfrunga og strákurinn sem stýrði bátnum stoppaði fyrir okkur svo við gætum tekið myndir og fylgst með þeim. Þegar við komum á eyjuna hvarf öll þreyta úr okkur, þetta var algjör paradís. Ljósblár sjór, hvít strönd og ekkert nema náttúran. Ótrúlega fallegt. Við eyddum byrjuninni á deginum í það að skoða ströndina, fengum okkur svo að borða en á meðan kom svakaleg rigning svo að við eyddum restinni af deginum í það að hvíla okkur.
Dagurinn eftir það var algjör snilld, það var mikill hiti þannig við vorum allann daginn á ströndinni að leika okkur. Næstu tveir dagar voru ekki eins góðir þar sem að það var bæði rok og rigning en við vorum hvort sem er svo brunnin eftir daginn á ströndinni að við vorum bara sátt með að vera inni.
Hótelið sem við vorum á var mjög fínt, maturinn var ágætur en aðallega var þjónustan svo góð. Við vorum með okkar eigin þjón þegar við komum að borða sem heitir Músi. Hann er algjör dúlla, alltaf brosandi. Maldaví-búar eru mjög brúnir og mjög litlir. Þeir stærstu eru aðeins minni en ég! (María)
Í gær kvöddum við Biyadhoo og tókum eins og hálfs tíma flug til Colombo í Sri Lanka. Það sat mjög fyndin kona við hliðina á mér í fluginu en þegar við fengum matinn teygði hún sig yfir á diskinn minn og tók kornin sem ég hafði skilið eftir úr vatnsmelónunni minni. Síðan þegar flugvélin lenti fór ég á klósettið og ég var án djóks búin að vera inni í 30 sekúndur og þá bankar einhver kall! Það eru sko allt öðruvísi siðir hérna í Asíu og hlutir sem okkur finnst vera dónalegir eru það ekki hjá þeim.
Við tókum taxa frá flugvellinum í Colombo á hostelið okkar. Þetta var eins og að fara í ferð hjá leigubílstjóra dauðans. Vinstri umferð og engar umferðarreglur.
Hostelið okkar í Sri Lanka er voðalega sérstakt. Þetta er bara íbúð í blokk með þremur herbergjum með kojum í. Það er voðalega krúttleg kona hérna sem sér um allt og er búin að vera mjög hjálpleg (þó hún skilji ekki alveg ensku).
Útsýnið frá hostelinu í Sri Lanka
Í dag höfum við notað tímann til þess að ganga um Colombo, sem er mjög stór borg og mjög ólík því sem við höfum séð áður. Við fórum niður á strönd og þar var ótrúlega mikið rusl, og mjög vond lykt(reyndar er ekkert sérstaklega góð lykt hérna í Colombo) og þar sáum við mann henda fullum poka af skít ofan í sjóinn!
Við tókum svo tuk-tuk bíl á McDonalds og það var verra en að vera í leigubílnum, það er ótrúlegt hversu margir tuk tuk bílar komast á tvær akreinar! Þegar við vorum orðin södd af ógeðismat röltum við inn í mall og skoðuðum það. Það er allt rosalega ódýrt hérna, t.d. fór ég í plokkun af augabrúnunum fyrir undir 200 kr íslenskar.
Þetta er komið nóg í bili - við ætlum að reyna að fara í wildlife safari á næstu dögum að skoða blettatígra og fíla.
Meira næst!
María, Hákon og Hlynur.
- comments
Guðrún Aðalsteinsdóttir Æðislegt að heyra hvernig gengur hjá ykkur! Mér finnst best þegar maðurinn henti skítnum sínum í sjóinn. Njótið Sri Lanka en farið varlega líka! Bíð spennt eftir næstu færslu!
Róshildur Ekkert smá gaman að lesa! Og þessi mynd í Maldives, alveg eins og hún sé instagrömuð eða eitthvað í þá áttina.. Ekkert smá flott! Hafiði það gott í Colombo og hlakka til að lesa meira og sjá fleiri myndir :D
Edda Verð svo glöð að lesa þetta, verið dugleg að blogga og halda manni updated! Have fun!
sólveig æðislegt hjá ykkur, allt að ganga svo vel, mikil upplifun. góða skemmtun áfram, frábært blogg María mín.
Skúli Guðmundsson Flott rapport María mín og gangi ykkur vel. Eruð þið farin að finna fyrir monsoon-inum sem kom yfir Sri Lanka í gær?
María Skúladóttir Nei, ekki svo mikið. Það kom rigning í nótt en hingað til hefur bara verið mikill hiti hjá okkur á daginn.
Aðalsteinn Hákon minn. Hvað er að frétta af ykkur í dag?