Profile
Blog
Photos
Videos
Eftir ferðina okkar til Uruguay fórum við aftur til Buenos Aires og nutum síðustu vikunnar okkar þar. Við fórum meðal annars á tangó sýningu þar sem við sáum færa dansara, heyrðum í flottum söngvurum og hlustuðum á lifandi tónlist. Þar fengum við einnig fyrstu kennslustundina í tangó þannig við hjónin kunnum núna nokkur spor! Elías fékk sér argentískt nautakjöt á meðan sýningunni stóð en Argentínubúar telja sig framleiða eitt besta nautakjöt í heimi. Elías var sammála því.
Fórum líka í "ferðamanna rútu" um Buenos Aires og sáum ýmsa merka staði. Fórum t.d. í hverfi sem heitir La Boca sem geymir m.a. heimavöll Boca jr. en það er eitt besta fótboltaliðið í Argentínu. Einnig fundum við þar götu sem heitir Caminito sem hefur þá sérstöðu að hafa hús í öllum regnbogans litum.
Héldum upp á fyrsta sunnudag í aðventu með því að fara á markað í San Telmo hverfinu og þar keyptum við litla aðventu "skreytingu", kveiktum á kerti og sungum: "Við kveikjum einu kerti á.."
Við kláruðum spænsku námskeiðið okkar og hlökkum til að nota spænskuna og vonandi læra meira í framtíðinni. Síðasta daginn okkar sýndi einn kennarinn okkur hvernig á að drekka "mate" en það er hálfgerður þjóðardrykkur Argentínumanna. Mate er heitur drykkur sem má flokka milli þess að vera kaffi og te og til að útbúa drykkinn þarf sérstaka tækni sem kennarinn kenndi okkur. Að sjálfsögðu keyptum við okkur mateo (glasið undir drykkinn) og smá mate til að taka með okkur til Íslands.
Við erum búin að eiga frábæran tíma í Buenos Aires og erum spennt að halda áfram ferðinni okkar.
Njótið aðventunnar kæru vinir og vandamenn.
Hildur og Elías
- comments